Stundum er augljóst hverju jafnréttisbarátta á að skila. Það er augljóst af hverju það á að segja frá kynferðisofbeldi. Af hverju konur eiga að fá jafnhá laun og karlar fyrir sömu vinnu. Og það er augljóst af hverju sömu tækifærin eigi að gilda um bæði kynin. Það er jafnrétti.
Það er nauðsynlegt að minna sig á, til að missa ekki sjónar á tilganginum.
Hvers vegna þarf að fjölga kvenkyns stjórnendum? Hvers vegna þarf að jafna kynjahlutföllin í atvinnugreinunum? Þetta eru eðlilegar spurningar. Það er hægt að færa rök fyrir því að hlutirnir hafi gengið ágætlega hingað til.
Fiskur kemur úr sjónum þó að hann sé bara veiddur af körlum. Börnin koma í heiminn og rölta fín út af leikskólunum þó að þau hafi nær alfarið verið í höndum kvenna. Rafmagnið kemur í húsin þó að lagnirnar séu lagðar af körlum. Ferðamenn fá þjónustu um borð þó að fáir séu flugþjónarnir. Og fyrirtækin skila hagnaði þó að í framkvæmdastjórnum sitji oftast karlar.
Til hvers að breyta þessu? Vegna þess að skortur á aðgangi að hæfu fólki er vandamál í mörgum atvinnugreinum og staðalmyndir og kynskiptur vinnumarkaður eykur þann vanda um helming. Ungt fólk þarf að sjá þá möguleika sem standa til boða og velja nám og starf út frá áhuga og styrkleikum en ekki kyni.
Höfundar greinarinnar eru Birna Bragadóttir og Sunna Valgerðardóttir. Greinina má nálgast hér.